Skoðun

Við þurfum fleiri hvali á grillið

Hvalveiðar - Magnús Þór Hafsteinsson alþingismaður Frjálslynda flokksins Dapurlegt var að lesa nýlega yfirlýsingu frá Hvalaskoðunarsamtökum Íslands þar sem samtökin fundu veiðum á hrefnu í vísindaskyni allt til foráttu og töldu þær skaða ferðaþjónustuna. Að sama skapi er svo ánægjulegt að lesa fréttir um það að hrefnukjötið fær afbragðs viðtökur neytenda. Íslendingar eru óðum að uppgötva að þetta er úrvals matur. Fitusnautt kjöt af villibráð sem nærist á krabbadýrum og fiski í hreinu og ómenguðu hafi norðurslóða. Það er slæmt að við skulum ekki nýta hvalastofna við landið meira en raun ber vitni. Hvalirnir skipta tugum þúsunda. Okkur ber að stunda veiðar á þessum dýrastofnum, rétt eins og við nýtum villta dýrastofna sem lifa á landi. Þrátt fyrir þetta er í gildi fáránlegt hvalveiðibann. Einungis er leyft að skjóta örfáar hrefnur á hverju sumri til vísindarannsókna. Í ár verða þær alls 39. Í fyrra voru þær 25 og 36 árið 2003. Þetta er í raun ekkert til að gera veður út af. Síðustu áratugi hefur ferðaþjónustu vaxið fiskur um hrygg. Ekkert nema gott um það að segja. Gleymum þá ekki að við sem búum í þessu landi erum hluti af þeirri náttúru og menningu sem við seljum ferðalöngum. Hvalveiðar og ferðamennska (þar með talin hvalaskoðun) geta vel farið saman. Við eigum ekkert að skammast okkur fyrir það að nýta endurnýjanlegar náttúruauðlindir eins og hvalastofnana. Íslenska eyþjóðin hefur frá landnámi aflað sér lifibrauðs af því sem náttúran gefur - það að sækja mat úr hafinu er hluti af menningu þeirra þjóða sem lifa við Norður- Atlantshaf. Viljum við vera öðruvísi en nágrannar okkar í Noregi, Færeyjum og Grænlandi þar sem hvalveiðar eru stundaðar án þess að sjá megi að ferðaþjónusta þar bíði skaða af? Þegar litið er til hvalveiða undanfarin ár, er einmitt áhugavert að skoða reynslu nágrannalandanna. Norðmenn hafa til dæmis um árabil veitt fleiri hundruð hrefnur árlega. Í sumar verða tæplega 800 dýr tekin á hafsvæðinu frá Norðursjó og norður að Svalbarða. Norðmenn láta ekki mótmæli hvalaverndunarsinna slá sig út af laginu. Enda engin ástæða til. Þeir stunda einnig öfluga markaðssetningu á afurðunum. Markaðssamtök fyrir hrefnukjöt í Noregi (www.hvalbiff.no) auglýsa grimmt og eru með góða heimasíðu sem ætti að vera okkur íslendingum til fyrirmyndar. Þar eru ótal uppskriftir að gómsætum kjötréttum, en líka fróðleikur. Til dæmis um veiðar, hvalategundir, rannsóknir og krækjur á heimasíður hvalafriðunarsinna og hvalveiðiskoðunarfyrirtækja. Árangur Norðmanna vekur svo aftur upp spurningar um hvernig staðið er að þessum málum hér á landi. Ríkisstjórnin á lítið lof skilið fyrir það hvernig hún hefur höndlað hvalveiðimálin. Vinnubrögðin einkennast af kjarkleysi og hálfkáki. Sjávarútvegsráðuneytið eyddi rúmlega 100 milljónum króna í kynningu á málstað Íslands í hvalveiðimálum á árunum 1998 til 2003. Það er ráðgáta í hvað og hvert þessir peningar hafa farið, því sorglega hægt hefur miðað í þessum málum alltof lengi. Einungis 39 hrefnur til boða á diska landsmanna sumarið 2005 segja meira en mörg orð um það.



Skoðun

Sjá meira


×