Skoðun

Skipulag snýst um lífsgæði

Framtíð í borgarskipulagi - Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn. Með það að markmiði að búa til enn betri Reykjavík hefur borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins lagt fram metnaðarfullar hugmyndir um framtíðarþróun byggðar í Reykjavík. Hugmyndirnar fela í sér framsæknar áætlanir um verulega fjölgun íbúa; nægt framboð lóða með meiri fjölbreytileika í byggðinni; ný íbúðasvæði þar sem lögð er áhersla á að stækka borgina til vesturs; stórbættar samgöngur um alla borg; spennandi lausnir varðandi umhverfi og útivist, ásamt nýjum hugmyndum um hverfatorg í hverju hverfi, átak til eflingar miðborgar og ýmislegt fleira. Megintilgangur allra þessara hugmynda er að bæta lífsgæðin i borginni og bjóða nýjar leiðir til að tryggja íbúum fleiri tækifæri til að njóta lífsins í sínu nánasta umhverfi. Við ætlum á næstu mánuðum að bjóða borgarbúum að taka þátt í að móta þessar hugmyndir með okkur og hafa áhrif á frekari meðferð þeirra. Íbúaþing, hugmyndabanki og samstarf Þessar hugmyndir borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins hafa fengið frábærar viðtökur, um þær hefur skapast mikil og gagnleg umræða og ljóst að Reykvíkingar hafa lengi beðið raunverulegra og raunhæfra hugmynda um framtíðarþróun höfuðborgarinnar. Enn sem komið er eru þetta þó aðeins hugmyndir, enda var tilgangurinn ætið sá að leggja þær fram snemma og kalla eftir athugasemdum og ábendingum íbúa, en þróa í framhaldi af því tillögur sem lagðar verða fram í komandi borgarstjórnarkosningum. Þessu kalli okkar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins hefur sannarlega verið vel svarað af Reykvíkingum, sem fjölmenntu á fyrsta íbúaþing okkar í Laugardal sl. fimmtudag þar sem vel á annað hundrað íbúa tóku þátt í skemmtilegum umræðum um framtíðarþróun byggðar í Reykjavík. Að auki hafa fjölmargir sent tillögur og ábendingar í hugmyndabanka á heimasíðu okkar, betriborg.is. Við vonumst eftir áframhaldandi samstarfi við íbúa og hlökkum til fleiri íbúaþinga sem haldin verða i öllum hverfum borgarinnar síðar í sumar. Búum til betri borg Alltof lengi hafa skipulagsmál í Reykjavík liðið fyrir skort á sýn fyrir framtíðina og ákvörðunum sem einkennst hafa af tilviljanakenndum bútasaum frá degi til dags. Reykvíkingar eiga skilið annað og meira og þeir eru greinilega reiðubúnir að leggja sitt af mörkum til að takast á við það stóra verkefni sem framtíðarþróun byggðar í Reykjavík er. Okkur sem í stjórnmálum störfum ber skylda til að mæta þessu verkefni og ganga í lið með íbúum borgarinnar, með það eitt að markmiði að mæta óskum og þörfum borgarbúa. Við ætlum að tryggja nægt framboð lóða; fjölga þeim valkostum sem íbúar hafa um byggingarland og húsagerðir; bæta samgöngur, m.a. með því að greiða fyrir umferð á helstu stofnæðum borgarinnar og með lagningu Sundabrautar alla leið. Einnig viljum við beita okkur fyrir spennandi lausnum til að njóta í ríkari mæli útivistar og umhverfis. Þannig getum við sannarlega bætt lífsgæði þeirra sem í Reykjavík búa nú og þeirra sem þar vilja búa í framtíðinni. Með þetta að markmiði getum við búið til betri borg – saman.



Skoðun

Sjá meira


×