Innlent

Ánægja með leikskólana

Menntaráð Reykjavíkurborgar kynnti í gær niðurstöður úr viðhorfskönnun foreldra leikskólabarna í Reykjavík. Í niðurstöðunum kemur fram að 99% foreldra telja að barni sínu líði mjög eða frekar vel í leikskólanum. Leikskólar Reykjavíkur hafa reglulega kannað viðhorf foreldra til þjónustunnar og niðurstöður kannanana eru notaðar bæði við innra og ytra mat á starfinu sem er unnið inni á leikskólunum. Ljóst er að starfsmenn leikskólanna geta vel við þessar niðurstöður unað. Fyrir liggja skipulagsbreytingar á stjórnkerfi Reykjavíkurborgar sem hafa í för með sér sameiningu Fræðslumiðstöðvar og Leikskóla Reykjavíkur í nýju menntasviði. Menntasviðið lýtur svo stefnumörkun Menntaráðs sem er pólitískt skipað. Þessar breytingar fara í gegn núna um mánaðamótin og mun Bergur Felixsson sem hefur verið í forsvari fyrir leikskóla í Reykjavík í samfelld þrjátíu ár þá láta af störfum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×