Innlent

Endurtaka þarf viðvörun við börn

Endurtekin fræðsla þar sem börn eru vöruð við því að fara upp í bíl með ókunnugum er nauðsynleg. Foreldrar verða líka að vera vissir um að börnin skilji það sem við þau er sagt. Tveimur drengjum í fyrsta bekk í grunnskólum í Keflavík var boðið upp í bíl hjá ókunnugum á síðustu dögum. Báðir drengirnir forðuðu sér inn í skólann aftur og létu ekki glepjast, jafnvel þótt þeim hafi verið boðið sælgæti. Má leiða líkum að því að foreldrar þeirra hafi rætt við þá um að fara aldrei upp í bíl hjá ókunnugum. Vigdís Erlendsdóttir, sálfræðingur og forstöðumaður Barnahúss, segir fræðslu til barna um þessi mál nauðsynlega. Þá sé nauðsynlegt að ganga úr skugga um að börnin skilji fyrirmælin, t.d með því að spyrja þau hvernig þau myndu bregðast við ákveðnum aðstæðum. Það sé ekki nóg að heyra þau einungis jánka því sem foreldrarnir segja. Flest börn sem koma í Barnahús eru nokkuð vel upplýst um að vara sig á ókunnugum. „En hvort þau fylgi því svo ef til kastanna kemur, það er kannski alltaf öruggt,“ segir Vigdís. Og fræðsla skólayfirvalda skiptir einnig miklu máli. Vigdís segir að þau eigi að ítreka það sem foreldrarnir hafa kennt börnunum um þessi mál.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×