Innlent

Skákeinvígi í undirbúningi

Unnið er að því að koma á skákeinvígi á Íslandi síðar á árinu þar sem Bobby Fischer myndi tefla opinberlega í fyrsta sinn síðan 1992. Bandarískur auðkýfingur Alex Titomirov er reiðubúinn að leggja fram stórar fjárhæðir í verðlaunafé. Titomirov kom til Íslands í fyrradag í fylgd með Boris Spassky og franska stórmeistaranum Joel Lautier til viðræðna við Fischer og stuðningsmenn hans. Hittust þeir á fundi í fyrrakvöld og aftur í gær áður en Titomirov og Spassky héldu af landi brott. Að sögn Einars S. Einarssonar eins stuðningsmanna Fischers er hugmyndin sú að reyna að koma á einvígi milli Fischers og einhvers öflugs skákmeistara, hér á Íslandi síðar á árinu. Tefld yrði slembiskák að kröfu Fischers en óvíst er hver andstæðingur hans yrði en ekki útilokað að það verði Spassky. Fishers var ekki reiðubúinn að skrifa undir neina yfirlýsingu að þessu sinni en ætlar að hugsa málið. Þeir Titomirov og Spassky koma aftur til Íslands eftir tvær til þrjár vikur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×