Innlent

Björguðu mönnum af brennandi skipi

Áhöfnin á Pétri Jónssyni RE bjargaði í gær fimmtán manna áhöfn brennandi skips frá Lettlandi. Þrír Íslendingar voru í áhöfn lettneska skipsins. Skipstjórinn á Pétri Jónssyni segir það mikla gæfu að bjarga fimmtán mannslífum. Pétur Jónsson var að veiðum á Flæmska hattinum þegar neyðarkall barst frá lettneskum togara. Íslenska skipið var fyrst á vettvang. Eiríkur Sigurðsson skipstjóri segir að þurft hafi að fara þrjár ferðir á milli skipanna en aðstæður hafi verið góðar, hægur vindur, lítill sjór og bjart. Áhöfn lettneska skipsins var komið um borð í kanadískt eftirlitsskipið Jean Charcot sem sigldi með hana til St. Johns á Nýfundnalandi. Eiríkur segir að engin von hafi verið til þess að bjarga lettneska togaranum en hann segir gleðina við að bjarga áhöfn hans mikla. Lúðvík Júlíusson, sem var í áhöfn Péturs Jónssonar, segir að fljótlega eftir að skipið kom á staðinn birtist Queen Mary II (sjá mynd 2) sem sigldi hægt fram hjá. „Eftir að við erum búnir að ferja áhöfnina á milli kemur rannsóknar- og fiskveiðieftirlitsskipið Jean Charcot og skipsbrotsmennirnir færa sig yfir í það. Við höldum svo aftur til veiða á milli 22 og 23 að íslenskum tíma. Um það bil 2-3 tímum eftir að áhöfnin yfirgefur Gideon sekkur það,“ segir Lúðvík. Meðfylgjandi myndir tóku Lúðvík Júlíusson, Birgir Már Guðnason og Eyjólfur Bjarnason.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×