Innlent

San Fransisco flugið hafið

FL Group hagnaðist um 25 milljónir króna fyrstu þrjá mánuði ársins. Þetta er næstbesta afkoma félagsins frá upphafi á þessum árstíma en fyrirtækið hefur utan einu sinni tapað á fyrsta ársfjórðungi. Forstjóri Icelandair er syngjandi glaður. Starfsemin á fyrsta ársfjórðungi einkennist af hagnaði af fjárfestingastarfsemi. Mikil flugvélaviðskipti settu svip á starfsemi félagsins og einnig uppbygging og undirbúningur fyrir 20% vöxt í leiðakerfi Icelandair á komandi sumri. San Fransisco er nýjasti staður félagsins og var fyrsta flugið farið síðastliðinn miðvikudag. Með í för voru margir af fremstu ráðamönnum landsins, þar á meðal Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi félagsins, segir bókanir í San Fransisco flug hafa verið mjög góðar. 90% ferðanna eru uppbókaðar en flogið er þrisvar í viku í Boeing 767 vél sem tekur tæplega 300 manns. Og borgarstjóri San Fransisco, Gavin Newsom, er ánægður með að Icelandair fljúgi nú beint til borgarinnar. Hann segir borgaryfirvöld lengi hafa beðið eftir þessu. „Ég veit að Icelandair hefur flogið til Bandaríkjanna í 50 ár og þetta er í fyrsta sinn sem flogið er beint frá Íslandi til Vesturstandarinnar,“ segir Newsom. Aðspurður hvort borgin hafi upp á eitthvað að bjóða segir Newsom hana svo sannarlega hafa það. Fólk geti ferðast um hana í togbrautarvagni, en fáir slíkir séu eftir í landinu, séð Golden Gate brúna og notið fallegs útsýnis. Sérstaða borgarinnar felist þó í fallegu borgarhverfunum. Og forstjóri Icelandair, Jón Karl Ólafsson. er ánægður með borgina. Hann segir hana hafa skemmtilega tengingu við Reykjavík, m.a.vegna þess að hún sé frjálslegri en margar aðrar bandarískar borgir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×