Innlent

Jaxlinn í banni í Vesturbyggð

Hafnarstjórn Vesturbyggðar hefur ákveðið að hætta að þjónusta strandferðaskipið Jaxlinn, sem er í eigu Sæskipa ehf., vegna skulda útgerðarfélagsins við hafnir. Einnig er útgerðarfélagið sagt ekki hafa sýnt nein viðbrögð við samningaumleitunum Vesturbyggðar en hafnarstjórnin bauð Sæskipum að fella niður áfallna dráttarvexti ef samið yrði um greiðslu skulda fyrir lok marsmánaðar. Málið var tekið upp á fundi hafnarstjórnar í síðustu viku þar sem ákveðið var, að sögn Guðmundar Guðlaugssonar hafnarstjóra, að leyfa Jaxlinum áfram að leggja að bryggju gegn innheimtu lögboðinna gjalda en starfsmenn hafnarinnar muni ekki þjónusta skipið. Guðmundur gefur ekki upp hvað Sæskip skulda mikið en fyrirtækið hefur frest til 10. júní til að gera upp eða semja um skuldina áður en hún verður send lögfræðingi til innheimtu. Jaxlinn skuldar einnig hafnargjöld í Ísafjarðarbæ. Forsvarsmenn Sæskipa gáfu blaðamanni ekki kost á því að spyrja um fyrirhugaðar aðgerðir af hálfu útgerðarfélagsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×