Innlent

Banna birtingu auglýsinganna

Auglýsingar Umferðarstofu, sem birst hafa í sjónvarpi og blöðum og sýna lítil börn í hættulegum aðstæðum, brjóta í bága við samkeppnislög og hefur birting þeirra verið bönnuð samkvæmt ákvörðun Samkeppnisráðs í dag. Í auglýsingunum sést lítið barn hlaupa fram af svölum háhýsis meðan faðir þess lítur undan. Karlmaður sést hlaupa niður stiga með lítið barn í fanginu og rekast þar á konu með þeim afleiðingum að hún fellur um. Þá sést karlmaður sveifla barni í hringi í kring um sig og missa það úr höndunum. Það var embætti umboðsmanns barna sem kvartaði yfir auglýsingunum. Að mati Umferðarstofu er verið að höfða til ábyrgðar fullorðinna í umgengni við börn með því að sýna ákveðna myndlíkingu áhættuhegðunar í daglegu lífi fólks sem tengd er við áhættuhegðun í umferðinni. Samkeppnisráð telur hins vegar að auglýsingarnar misbjóði börnum þar sem þær séu sýndar á þeim tíma sem líklegt er að börn sjái þær og heyri. Ráðið telur að þær hættur sem sýndar eru falli ekki undir hættur við hversdagslegar aðstæður og séu börn því varla í stakk búin til þess að skilja samlíkingu á þeim við hættur í umferðinni. Það er niðurstaða Samkeppnisráðs að það lýsi hættulegu atferli í skilningi samkeppnislaga að sýna lítið barn falla fram af svölum, að hlaupið sé með smábarn niður stiga og sveifla barni um og sýna það falla niður stigaop. Segir í ákvörðun ráðsins að í ljósi þess að Umferðarstofa hafi ekki kosið að fara að tilmælum Samkeppnisstofnunar, um að ljúka málinu með því að hætta birtingu auglýsinganna, telji ráðið nauðsynlegt að banna birtingu þeirra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×