Innlent

Indverjar vilja opna sendiráð

Indverjar telja ástæðu til að kanna opnun sendiráðs hér á landi. Ástæðan er lykilstaðsetning landsins. Beint flug milli landanna er líka í kortunum. Forseti Indlands, A.P.J. Abdul Kalam-he, kemur hingað til lands á næstunni ásamt föruneyti og veita fjölmiðlar á Indlandi ferðalaginu nú þegar allnokkra athygli. Þetta verður í fyrsta sinn sem indverskur þjóðhöfðingi sækir Ísland heim. Fjallað er um samskipti landanna og að indverskir ræðismenn séu bæði í Reykjavík og á Akureyri. Haft er eftir embættismönnum í indverska utanríkisráðuneytinu að það dugi ekki lengur heldur sé tímabært að kanna opnun sendiráðs í Reykjavík. Lega landsins sé lykilatriði auk þess sem samskipti Indlands og Íslands séu mjög á vinsamlegum nótum. En það er fleira en diplómatísk samskipti sem Indverjar velta fyrir sér: Beint flug frá Indlandi til Íslands gæti hafist innan tíðar samkvæmt fregnum indverskra fjölmiðla. Þeir segja loftferðasamning verða gerðan á milli ríkjanna í tengslum við forsetaheimsóknina. Flugmálastjóri Indlands segir í viðtali við dagblaðið Indian Express að Indverjar þekki lítið til Íslands og öfugt en að góðar líkur séu á að beinar flugsamgöngur verði teknar upp innan tveggja ára.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×