Innlent

2600 umsóknir í 1200 störf

Um 2600 ungmenni hafa sótt um tólf hundruð sumarstörf í gegnum Vinnumiðlun ungs fólks í Reykjavík. Þegar hafa tæplega níu hundruð ungmenni fengið vinnu. Á hverju vori byrja atvinnuumsóknir að hrúgast inn hjá Vinnumiðlun ungs fólks í Hinu húsinu. Þeir sem geta sótt um sumarvinnu hjá Vinnumiðluninni að þessu sinni eru krakkar sem eru 17 ára og eldri eða þeir sem fæddir eru 1988 og fyrr. Samkvæmt upplýsingum hjá miðluninni ungs fólks eru um 1200 störf í boði í sumar og hafa um 2600 krakkar lagt inn umsókn. Þegar hefur 881 verið ráðinn í eitthvað starf. Í fyrrasumar voru ívið fleiri á skrá hjá vinnumiðluninni, eða um 2800, og fengu þá 1513 krakkar vinnu. Störfin sem um ræðir eru aðallega á vegum Reykjavíkurborgar en flestir fá sumarvinnu hjá Gatnamálastjóra, Garðyrkjudeild borgarinnar, Íþrótta- og tómstundaráði og í leikskólum borgarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×