Innlent

Fundu flöskuskeyti á fjöllum

Flöskuskeyti, líklega sextíu ára gamalt, fannst á fjalli á Vestfjörðum í vikunni. Skeytið fannst í Erni við Skutulsfjörð og voru það tveir skíðamenn sem komu auga á það. Virðist sem þrír félagar, bræður og frændi þeirra hafi skilið skeytið eftir þar uppi. Á skeytið voru rituð þrjú nöfn: Garðar Ólafsson, Gunnar Hjartarson og Ólafur Hjartarson. „Ég rannsakaði málið aðeins og þá kom í ljós að Gunnar (f. 1919) og Ólafur (f. 1920) voru bræður Helga Hjartarsonar í Grundargötunni og Garðar Ólafsson var frændi þeirra“, segir Stefán Freyr Baldursson, annar skíðamannanna sem fundu skeytið.  Að sögn Stefáns var það algjör tilviljun að þeir fundu flöskuskeytið sem skorðað var á milli steina. Flaskan var ekki lokuð en þannig gengið frá henni að ekki rigndi ofan í hana og loft léki um innihaldið. Skeytið er dagsett 7. júlí árið 1945. Texti þess er: „Lögðum upp frá Arnardal upp eftir fjallshryggnum. Ætlum eftir endilöngu fjallinu og niður Naustahvilft.“ Undir þetta skrifa svo bræðurnir Gunnar og Ólafur Hjartarsyni og Garðar Ólafsson frændi þeirra. Stefán hyggst fara von bráðar aftur á fjöll, sækja flöskuna og færa syni Gunnars Hjartarsonar, Gunnari Þór Gunnarssyni, skeytið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×