Innlent

Selma og Sigríður Anna gáfu klink

Selma Björnsdóttir söngkona og Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra gáfu í gær Rauða krossi Íslands afgangsklink og seðla frá ferðum sínum til Úkraínu og Kína. Þeirra gjöf markaði upphaf landssöfnunar Rauða krossins á erlendri mynt og seðlum sem eflaust fylla skúffur og krukkur margra landsmanna. Næstu daga verða sérstök umslög send inn á öll heimili og fólk er hvatt til þess að tæma umræddar skúffur og krukkur í þágu góðs málefnis. Afraksturinn verður síðan nýttur til þess að styrkja starf Rauða krossins hér innanlands en um 1.400 sjálfboðaliðar starfa á vegum Rauða krossins hérlendis. Að sögn Þóris Guðmundssonar, upplýsingafulltrúa Rauða krossins, mætti Sigríður Anna með kínverskt seðlabúnt sem var þó ekki nema nokkur hundruð króna virði, enda kínverskir seðlar stundum jafnvel minna virði en myntin. Selma mætti með fullan poka af klinki en var víst ekki búin að telja saman verðgildið. Síðast þegar Rauði krossinn stóð fyrir slíkri söfnun söfnuðust um fjórar milljónir króna og segist Þórir vonast til að jafnvel enn meira safnist í þetta skiptið. Hann tekur einnig fram að vegna góðra samninga við breskt fyrirtæki sem flokkar gjaldmiðlana séu afföllin af gjöfunum ekki nema rétt um 10 prósent.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×