Innlent

Flensa berist varla með farfuglum

Haraldur Briem, sóttvarnarlæknir, telur hverfandi líkur á að fuglaflensa berist hingað til lands með farfuglum. Hann segir að berist fregnir af því að flensan sé farin að smitast manna á milli, verði viðbragðsáætlun strax sett í gang. Karlmaður í Víetnam dó í gær úr fuglaflensu og hafa nú 54 látist vegna hennar í Asíu. Haraldur Briem sóttvarnalæknir var gestur Íslands í bítið í morgun. Hann var meðal annars spurður að því hverjar líkurnar væru á því að flensan bærist hingað til lands. Haraldur sagði að það væri ekki vitað. Menn hefðu hins vegar áhyggjur af því að í Suðaustur-Asíu væri fuglaflensan viðvarandi. Á Vesturlöndum hefðu menn náð tökum á henni og drepið sýkta fugla en í Suðaustur-Asíu hefði veikin gengið árum saman, í raun síðan 1997 þegar fuglaflensan var í Hong Kong. Jarle Reiersen, dýralæknir alifuglasjúkdóma, sagði í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að farfuglar gætu borið fuglaflensu hingað til lands og minnti á að hún hefði fundist í urtönd í Mývatnssveit árið 1980. Fuglaflensa gæti leynst í fugli hér á landi án þess að menn vissu. Haraldur hefur ekki mikla trú á að fuglaflensa smitist í menn með farfuglum. Hann segir hana líklegri til að koma með fólki þegar og ef veikin fari að berast milli manna. Þannig muni hún berast um heiminn. Líkurnar á því að fólk hér á landi smitist af fuglum séu hverfandi litlar. Það séu allt öðruvísi aðstæður í fjölmennum ríkjum eins og í Suðaustur-Asíu þar sem návist við dýr sé mun meiri en hér á landi. Allt sé þó mögulegt í náttúrunni. Haraldur bendir á að heimsfaraldrar geisi venjulega þrisvar á öld og ómögulegt sé að segja hvenær næsti faraldur verði. Nú sé í fyrsta sinn hægt að sjá slíkan faraldur fyrir og grípa til aðgerða. Hann segir að um leið og í ljós komi að fuglaflensa smitist á milli manna verði gripið til aðgerða. Komið verði upp sérstöku vöktunarkerfi hér á landi og allir sem séu með inflúensueinkenni verði greindir. Aðspurður um hvaða einkenni sé að ræða segir Haraldur að það séu hin hefðbundnu inflúensueinkenni: skyndileg veikindi, vöðvaverkir, hár hiti, hálssærindi og höfuðverkur, en allir sem hafi fengið inflúensu þekki þau. Hún sé öðruvísi en venjulegar kvefpestir og annað þvíumlíkt því hún komi eins og högg. Það sé því tiltölulega auðvelt að greina hana.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×