Innlent

Frá Siglufirði til borgar á hjóli

Tíu starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Siglufjarðar hjóluðu til Reykjavíkur til að taka við viðurkenningu í keppninni Hjólað í vinnuna. Tveir til viðbótar fylgdu hópnum á bílum en tíu skiptust á að hjóla. Minnst hjóluðu tveir í einu en allur hópurinn hjólaði saman á köflum. Þau lögðu af stað klukkan eitt í gær dag og komu í Mosfellsbæinn klukkan þrjú í nótt þar sem þau fengu að gista hjá fyrrverandi framkvæmdastjóra sjúkrahússins. Hópurinn var í öðru sæti í sínum flokki í keppninni Hjólað í vinnuna. En var ekki erfitt að fá fólk með í svona langa ferð? Valþór Stefánsson, einn hjólreiðakappanna, segir að í matsal heilbrigðisstofnunarinnar hafi hugmyndin verið borin upp en engar mótbárur hafi þar komið fram. Aðspurður hvaða vegkaflar hafi verið erfiðastir segir Valþór að það hafi bæði verið vindasamt og svo hafi brekkurnar verið erfiðar. Leiðin upp Vatnsskarð hafi verið erfið og þá hafi verið mjög erfitt að hjóla undir Hafnarfjalli og á Kjalarnesi. Svo hvasst var á Kjalanesinu að fólksbíll með hjólhýsi í eftirdragi hafði fokið út af og kom einn hjólreiðamannanna fyrstur á slysstað. Valþór segir að ekki hafi orðið slys á fólki en þetta hafi ekki litið vel út. Valþór segir flesta bílstjórana sem tóku fram úr þeim á leiðinni hafa verið mjög tillitsama og þá sérstaklega atvinnubílstjórana á vöru- og flutningabílum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×