Innlent

Tjónþolar fá hlut sinn bættan

"Tjónþolar, sem verða fyrir tjóni af völdum vanrækslu byggingarstjóra, geta sett sig beint í samband við tryggingafélag byggingarstjórans. Meginreglan er sú að tryggingin tekur á þeim tilvikum þegar þriðji aðili verður fyrir almennu fjártjóni sem rekja má til þess að byggingarstjórinn fer ekki eftir samþykktum uppdráttum, lögum og reglugerðum," segir Rafn Marteinsson, deildarstjóri hjá VÍS. Rafn segir það skipta mestu máli þegar meta á fjártjón af því tagi sem hér um ræðir að orsakasamband sé milli tjónsins og hátternis þess sem valdið hefur tjóninu. Ekki mega líta á lokaúttekt húsnæðis sem einhvers konar vottorð um verksmiðjuábyrgð og byggingarstjóri sé ekki þar með laus frá sinni ábyrgð. Íbúar fjölbýlishúss í Grafarholti rekja skemmdir á fimm ára gömlu fjölbýlishúsi til vanefnda verktaka og galla á byggingunni og vilja tjón sitt bætt. Í Fréttablaðinu í gær var fjallað um mál þeirra og þá staðreynd að ekki hafði farið fram lokaúttekt byggingarstjóra á húsnæðinu en einn íbúa hússins hafi óskað eftir að slík úttekt færi fram þar sem byggingarstjórinn hafði ekki sjálfur óskað eftir slíkri úttekt til byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar. Bjarni Þór Jónsson, staðgengill byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar, segir að starfsábyrgðartrygging taki strax gildi og gefið hafi verið út byggingarleyfi. "Það getur enginn byggingarstjóri skráð sig á verk nema hann hafi lögbundna tryggingu og við höfum upplýsingar um það frá umhverfisráðuneytinu hverjir hafa slíkar tryggingar. Þannig það er vel fylgst með slíku, " segir Bjarni. Dómskvaddur matsmaður hefur nú verið fenginn til að meta hvort að rekja megi þær skemmdir sem orðið hafa á húsinu til vanrækslu verktakafyrirtækisins sem annaðist bygginguna eða byggingarstjóra. Verktakinn neitaði að tjá sig um málið þegar Fréttablaðið óskaði eftir viðbrögðum hans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×