Innlent

Álagning kaupmanna vel rífleg

"Þessar niðurstöður koma mér á óvart og sýna að innflytjendur hafa verið ríflegir í allri álagningu sinni," segir Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna. Nýbirt verðkönnun hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat, sýnir að tugprósentamunur var á verðum á fatnaði og skóm hérlendis samanborið við þjóðir innan ESB. Reyndist Ísland dýrast í öllum þeim tólf flokkum sem kannaðir voru en verð 285 vörutegunda voru bornar saman. Um er að ræða tölur frá árinu 2003 þar sem borin voru saman verð milli allra sambandsríkjanna, þriggja ríkja sem sótt hafa um aðild og EFTA ríkjanna Sviss, Noregs og Íslands. Er niðurstaðan sú að Ísland reyndist í heildina 49 prósent dýrari en meðaltal Evrópusambandsins og ellefu prósentum dýrari en Noregur sem kom næst. Sé litið á hvern flokk fyrir sig reyndist Ísland dýrast hvað varðaði skófatnað fyrir ungabörn en þar munaði 60 prósentum frá meðaltali Evrópuríkja. Skófatnaður kvenna reyndist 58 prósent dýrari en meðaltalið og skófatnaður karla 54 prósent dýrari. Minnstu munaði á herrafatnaði sem var þó 39 prósent dýrari hér en í Evrópu. Ódýrustu þjóðirnar í könnuninni reyndust vera Búlgaría og Rúmenía en verð í flestum flokkum þar voru um 40 til 50 prósent undir meðaltali ríkja ESB. Sigurður Jónsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, sagðist ekki hafa skýringar á reiðum höndum á þessum mikla mun milli Íslands og Evrópu. "Hins vegar er talað um að innflytjendur greiði að meðaltali fimmtán prósent meira fyrir vöruna hingað komna en aðilar í Evrópusambandinu greiða fyrir sína vöru. Einnig má benda á að raunverðslækkun á fatnaði hér á landi hefur verið fimm prósent síðustu tíu árin og á sama tíma hefur launavísitalan hækkað um 30 prósent. Það má því segja að þessir hlutir hafi lækkað en þetta skýrir ekki þennan mikla mun."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×