Innlent

Aukin demantaeign, þökk sé Ólafi

Ólafur Ragnar, forseti Íslands, er svo duglegur að hjálpa viðskiptalífinu að brátt ættu allar konur á Íslandi að geta eignast demant, sagði Dorrit Moussaieff forsetafrú og skartgripasali þegar hún skoðaði skartgripaúrvalið í Kína. Forsetafrúin var sérlega ánægð í Sjanghæ. Þar skoðuðu hjónin m.a. gamla bæinn og Ju Juan garðinn. Þaðan hélt Dorrit ásamt föruneyti á perlumarkaðinn og sýndi þar frábæra hæfni í að finna fallegt skart og prútta verðið niður. Svo var farið í demantaslípiverksmiðju þar sem Dorrit kynnti sér verktökin í Kína en hún hefur mikla reynslu og þekkingu á þessu grjóti sem kallað hefur verið besti vinur kvenna. Aðspurð hvort allar konur ættu að eiga demanta sagðist hún telja það. „Ef Ólafur veitir öllum íslenskum fyrirtækjum tækifæri hefur það á endanum áhrif og vonandi hafa þá allar konur efni á slíku. Og allir karlmenn,“ sagði Dorrit. Spurð um demantaeign sína sagðist Dorrit ekki eiga mikið af þeim - alla vega ekki nóg. Ólafur Ragnar yrði því að vera aðeins duglegri í framtíðinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×