Innlent

Skrúfa af kanadískum tundurspilli

Landhelgisgæslan kom með skrúfu af kanadíska tundurspillinum Skeenu að Reykjavíkurhöfn í dag. Skeena strandaði við vesturenda Viðeyjar í nóvember árið 1944. Alls fórust 15 manns þegar Skeena strandaði við Viðey þetta örlagaríka ár en þó björguðust yfir 200 manns. Ásgrímur Ásgrímsson, deildarstjóri hjá Landhelgisgæslunni, segir skipinu síðar í stríðslok hafa verið bjargað af strandstað og átti að draga það til erlendrar hafnar í brotajárn. Eftir hafi hins vegar orðið skrúfan og öxullinn og allar götur síðan verið við Viðey, þangað til í dag. Skrúfan er gríðarstór, vegur yfir 10 tonn, og þurfti stóreflis krana til að hífa hana í land. Í fyrra voru 60 ár síðan atburðurinn átti sér stað og segir Ásgrímur að þá hafi komið upp að hugsanlega væru djúpsprengjur á svæðinu. Gæslan leitaði því svæðið en fann engar sprengjur, en fann hins vegar skrúfuna. Í kjölfarið var haft samband við kandadíska sendiráðið sem hafði aftur samband við flota landsins. Í framhaldinu var Gæslan beðin um að ná skrúfunni upp. Og það var gert en Ásgrímur segir þó að ekki sé óhætt fyrir kafara að kafa á slóðum Viðeyjar því þó svo ólíklegt sé að þar leynist hættur, sé aldrei að vita. Aðspurður hvað verði gert við skrúfuna segir Ásgrímur að útbúið verði minnismerki með henni sem komið verði fyrir úti í Viðey.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×