Innlent

Á þriðja milljarð í fegrunarvörur

Fegurðin kostar sitt. Íslendingar vörðu vel á þriðja milljarð króna í fegrunarvörur í fyrra, en það er svipuð upphæð og fór í að reka Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri allt síðasta ár. Hér er ekki um að ræða tölur yfir hreinlætisvörur eins og sjampó, tannkrem og klósettpappír, heldur förðunar- og húðvörur: ilmvötn, varaliti, augnskugga, og naglalakk, auk ýmissa smyrsla og krema sem framleidd eru til að viðhalda unglegu útliti og fegra. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunnni var innflutningsverð þessara vara rúmur milljarður á síðasta ári og þá á eftir að bæta álagningu heildsala, smásala og virðisaukaskatti ofan á. Það gerir á þriðja milljarð. Og það eru ekki bara konur sem kaupa. Guðrún Ingólfsdóttir hjá Lyf og heilsu segir karlmenn alltaf vera að kaupa meira og meira af snyrtivörum, enda séu þær orðnar svo góðar. Þeir geti því hætt að fara í krukkurnar hjá konunum. Guðrún tók saman grunnpakka. Hann kostar tuttugu þúsund krónur. Hér segir vörurnar nauðsynjar, enda aðeins um að ræða húðvörur - engar förðunarvörur. Svo má endalaust bæta við: augnhreinsi, krem fyrir fyllri varir, grennri læri, stinnari rass og því má ætla að íslenskar konur eigi tugþúsunda virði af snyrtivörum inni á baðherbergi. Guðrún segir þetta svo sannarlega virka. En eru tveir til þrír milljarðar í fegrunarvörur há upphæð? Til samanburðar má geta þess að hagnaður Samherja á síðasta ári voru þrír milljarðar. Það kostaði þrjá milljarða að reka flugmálastjórn og álíka upphæð fór í rekstur Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri í fyrra, svo fátt eitt sé nefnt. Við þetta má bæta að talið er að heil 40 prósent sölunnar fari fram í Fríhöfninni í Keflavík.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×