Innlent

Barðist við 100 kílóa stórlúðu

Hundrað kílóa stórlúða kom á land í Bolungarvík í dag. Viðureign sjómanns og fisks stóð í á aðra klukkustund áður en lúðan varð að játa sig sigraða. Það þykja alltaf tíðindi þegar svona flykki nást úr sjó. Baldur Hjörleifsson, sem veiddi lúðuna, segir að hún hafi náðst út af Deild og að hún hafi verið um 100 kíló. Aðspurður hvernig lúðan hafi veiðst segir Baldur að húkkast hafi í hana og að baráttan hafi verið erfið því hann hafi þreytt hana þrisvar og þrisvar hafi hún farið niður á botn. Viðureignin hafi staðið í rúman klukkutíma. Baldur segir það ekki hafa verið áhlaupaverk að koma lúðunni inn fyrir borðstokkinn en allt hafðist þetta á endanum. Hann segist ekki hafa hugmynd um hversu mikið hann fái fyrir lúðuna en til viðbótar við hana kom hann með tonn af fiski svo það er óhætt að segja að Baldur megi vel una við afla dagsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×