Innlent

Kvikmyndafræði kennd í HÍ

Til stendur að hefja kennslu í kvikmyndafræði við hugvísindadeild Háskóla Íslands í haust og hefur skólinn samið við Samskip um að styðja námið með því að kosta stöð kennara. Til að byrja með verður kvikmyndafræðin 30 eininga aukagrein á BA-stigi en stefnt er að því að byggja upp framhaldsnám í greininni á næstu árum, eftir því sem fram kemur í sameiginlegri tilkynningu frá Háskólanum og Samskipum. Styrkur Samskipa til Háskóla Íslands vegna kvikmyndafræðinámsins nemur 3,6 milljónum króna á næsta ári og var samningur þar að lútandi undirritaður í háskólaráðsherberginu í aðalbyggingu Háskólans í dag. Það gerðu Páll Skúlason rektor og Ólafur Ólafsson, starfandi stjórnarformaður Samskipa, að viðstöddum fulltrúum beggja samningsaðila. Innan bókmenntafræði- og málvísindaskorar í Háskóla Íslands hefur að verið boðið upp á nokkur kvikmyndanámskeið á síðustu árum en nú hefur verið ákveðið að stíga skrefi lengra og bjóða upp á kvikmyndafræði sem sjálfstæða grein frá og með næsta háskólaári. „Markmiðið með kennslu í kvikmyndafræði er meðal annars að varpa ljósi á þróun og sögu kvikmynda á Vesturlöndum og að nokkru leyti í öðrum heimshlutum að þjálfa stúdenta í að skilja og túlka kvikmyndir frá ýmsum tímum og ólíkum þjóðlöndum, og kynna helstu hugtök og vinnuaðferðir í kvikmyndafræði. Þróttmikið kennslu- og rannsóknastarf á þessu sviði mun í framtíðinni skila sér í betri kvikmyndamenningu hér á landi,“ segir Páll Skúlason rektor. „Þykir okkur vel við hæfi að íslenskt fyrirtæki í alþjóðlegum vöruflutningum styðji við bakið á og raunar leggi grunn að nýju fræðasviði hér á landi, fræðasviði sem lýtur að þeim listmiðli sem á hvað augljósastan hátt tengir saman íslenska og erlenda menningarheima.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×