Innlent

Tveimur bjargað af sökkvandi báti

Tveimur skipverjum af línubátnum Ásdísi Ólöfu var bjargað í nótt eftir að leki kom að bátnum. Neyðarkall barst með sjálfvirku kerfi tilkynningaskyldunnar laust fyrir klukkan tvö en þá var báturinn um átta sjómílur norðvestur af Siglunesi. Reynt var að ná sambandi við bátinn en það tókst ekki. Þá var Sigurvin, björgunarbátur Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, kallaður út og einnig þyrla Landhelgisgæslunnar auk þess sem bátar á þessum slóðum voru beðnir um að svipast um. Línubáturinn Óskar fór þegar til leitar en hann var staddur út af Skagafirði. Um klukkustund síðar tilkynnti áhöfn björgunarbátsins að hún sæi neyðarblys og skömmu síðar var búið að bjarga báðum mönnunum úr áhöfn Ásdísar Ólafar, en þeir höfðust við í gúmmíbjörgunarbáti. Ásdís Ólöf maraði í hálfu kafi en engu að síður tókst að bjarga bátnum með því að draga hann þannig til lands.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×