Innlent

Ástand vegriða í lagi?

Vegamálastjóri segist ekki viss um að ástand vegriða hér á landi sé óviðunandi. Rannsóknarnefnd umferðarslysa rekur tvö banaslys sem urðu nýlega til stuttra eða gallaðra vegriða. Nefndin telur vegrið almennt of stutt hér á landi og hefur sent Vegagerðinni athugasemdir vegna þess í kjölfar banaslysa sem orðið hafa. Á þessu ári hafa tvö ungmenni látist í slysum þar sem talið er að vegrið hafi annað hvort verið of stutt eða gölluð. Átján ára piiltur lést í slysi við Dalvík í mars og nítján ára stúlka lést í slysi við Norðlingaholt í fyrradag. Erlendis hefur hönnun vegriða verið í þróun og víða í Bandaríkjunum má til dæmis sjá tunnur sem settar eru upp við þau til að taka af högg. Slíkt hefur ekki tíðkast hér á landi. Framkvæmdastjóri Rannsóknarnefndar umferðarslysa sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að banaslysin nýverið virðist dæmi um að lengri vegrið hefðu getað bjargað mannslífum. Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri segist aðspurður ekki geta svarað því hvort vegrið séu almennt of stutt hér á landi. Það sé alltaf matsatriði hvar vegrið eigi að byrja og hvar enda. Jón segir vegrið kostnaðarsöm og að þeim fylgi alltaf ákveðin hætta, þ.e. bílar geti keyrt á þau. Nauðsyn á þeim og lengd verði því alltaf að meta út frá aðstæðum á hverjum stað. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×