Innlent

Veiðarnar virðast hafa lítil áhrif

Hvalveiðar í vísindaskyni virðast lítil áhrif hafa haft á fjölda þeirra ferðamanna sem nýta sér hvalaskoðunarferðir. Tekjur af 82 þúsund slíkum ferðamönnum námu 1,9 níu milljörðum króna á síðasta ári, og hvalaskoðun er orðin vinsælasta afþreying ferðamanna hér á landi. Á þeim tíu árum sem boðið hefur verið upp á hvalaskoðun við Ísland hfur fjöldi ferðamanna sem hana sækir aukist jafnt og þétt. Á síðasta ári fóru fleiri en 80 þúsund í slíkar ferðir en fjöldinn var um 2000 fyrir áratug. Hvalaskoðunarsamtök segja þetta ævintýri líkast; tekjurnar streyma inn og iðnaðurinn hefur skilað sér í jákvæðari umfjöllun um Ísland í erlendum fjölmiðlum, þ.á m. ókeypis auglýsingum í Time og Fortune Magazine. Ásbjörn Björgvinsson, formaður Hvalaskoðunarsamtaka Íslands, segir að samtökin séu um leið að rekast á þann vegg að íslensk stjórnvöld skuli vera að eyða milljónatugum í að kynna hvalveiðar víða um heim. Það finnist útlendingum ekki ganga saman, sérstaklega ekki Bretum samkvæmt yfirmönnum Icelandair þar í landi. Frá því sjávarútvegsráðherra heimilaði vísindaveiðar á hrefnum fyrir um tveimur árum hafa hvalaskoðunarsamtökin varað við neikvæðum áhrifum þar sem helsta söluvara hvalaskoðunarfyrirtækja yrði að öllum líkindum drepin fyrst. Tölur þeirra um fjölgun ferðamanna gefa þó ekki til kynna að hvalaskoðun líði fyrir; fjöldi farþega í skoðunarferðirnar jókst t.d. um tíu þúsund á milli áranna 2003 og 2004. Ásbjörn segist enn vera á móti hvalveiðunum því hann sjái einfaldlega ekki tilganginn með þeim.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×