Innlent

Töfravatn leitt á sundlaugarsvæði

Orkuveita Húsavíkur hefur ákveðið að leiða 95 gráðu heitt vatn úr borholu á Húsavíkurhöfða í pott sem komið verður fyrir við Sundlaug Húsavíkur. Veitustjóri segir vatnið hafa góða virkni gegn psoriasis-sjúkdómnum auk þess sem breyting á efnainnihaldi þess getur sagt til um yfirvofandi jarðhræringar á Norðurlandi. Hreinn Hjartarson veitustjóri segir að holan hafi verið boruð 1960 og sé um 1500 metra djúp. Átti hún að sjá Húsvíkingum fyrir heitu vatni en frá því var horfið þar sem of mikið salt var í vatninu. "Þetta er með elsta vatni sem fundist hefur á Íslandi og hefur klárlega sambærileg heilsuáhrif og vatnið í Blá lóninu," segir Hreinn. Vikulega eru tekin sýni úr vatninu og þau send til Stokkhólms. "Með því að fylgjast með breytingum á efnainnihaldi vatnsins hafa sænskir sérfræðingar getað sagt til um yfirvofandi jarðhræringar á Norðurlandi. Á næstunni verður komið fyrir sjálfvirkum mælibúnaði sem efnagreinir vatnið og sendir niðurstöðuna í gegnum símalínu til Svíþjóðar," segir Hreinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×