Innlent

Þingmenn sýndu rauða spjaldið

Um fjögur hundruð manns komu saman á Ingólfstorgi í gær til að sýna samstöðu gegn ofbeldi. Þetta var gert á táknrænan hátt þegar allir viðstaddir lyftu rauða spjaldinu á loft og þögðu í þrjár mínútur því til áherslu. Þónokkrir þingmenn tóku sér til að mynda hlé frá annars annasömum vinnudegi á þinginu til að sýna vilja sinn í verki. Einn viðmælandi Fréttablaðsins sagðist vonast til þess að samstaðan yrði til þess að vekja almenning til vitundar um alvarleika ofbeldis og mikilvægi þess að standa saman gegn því. Samkoman var þó síður en svo öll á alvarlegu nótunum því KK og Hjálmar stigu á stokk og skemmtu viðstöddum með spili og söng við góðar undirtektir. Edda Hermannsdóttir einn skipuleggjenda samstöðunnar sagðist ánægð með mætinguna þó auðvitað hefði verið gaman að sjá enn fleiri. Markmiðið hafi verið að vekja fólk til vitundar og var hún sannfærð um að það hafi tekist og umræðan væri komin vel af stað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×