Innlent

Ekki eigin siðareglur

Blaðið, nýtt dagblað sem kom í fyrsta sinn út í dag, setur sér ekki sínar eigin siðareglur heldur styðst við siðareglur Blaðamannafélags Íslands. Von er á sérreglum DV um siðamál á morgun. Í fyrsta leiðara blaðsins er fjallað um stefnu þess. Þar kemur fram að blaðið sé frjálst og óháð dagblað, óháð einstökum fyrirtækjum, fyrirtækjagrúppum, stjórnmálaflokkum og hreyfingum. Blaðið lýtur prentlögum og siðareglum Blaðamannafélags Íslands. Í leiðaranum segir að Blaðið flytji fréttir af mönnum og málefnum og sé ekkert óviðkomandi. Þar segir að blaðinu sé ætlað að veita fyrirtækjum og stjórnvöldum aðhald og halda lesendum sínum upplýstum um það sem gerist í raun og veru. Skýrt er tekið fram að blaðið muni ekki vega úr launsátri að einum né neinum og því sé ætlað að standa vörð um frjálst samfélag. Blaðinu er dreift frítt, fimm daga vikunnar í 80 þúsund eintökum, til heimila og fyrirtækja.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×