Innlent

Pólitísk ráðning á Höfða?

Guðjón Guðmundsson, fyrrverandi alþingismaður, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Dvalarheimilisins Höfða á Akranesi. Sextán sóttu um stöðuna, í þeim hópi afar vel menntaðir og reynslumiklir menn. Guðjón er gagnfræðingur og því með minnstu menntunina en hann sat á Alþingi í tólf ár fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Í auglýsingu um starfið var óskað þekkingar á stjórnsýslusviði, bókhaldsþekkingar og hæfni í mannlegum samskiptum auk þess sem framkvæmdastjórinn átti að vera búsettur á svæðinu. Það er því ljóst að Guðjón uppfyllir kröfurnar. Stjórn Höfða er skipuð fjórum fulltrúum bæjarstjórnar og einum fulltrúa hreppanna umhverfis Akranes. Fulltrúar bæjarstjórnar eru tveir fulltrúar Framsóknarflokks og Samfylkingar og tveir fulltrúar minnihlutans. Tveir síðastnefndu og fulltrúi hreppanna eru sjálfstæðismenn. Þeir greiddu Guðjóni atkvæði sitt. Fulltrúar meirihluta bæjarstjórnar greiddu hinsvegar Brynju Þorbjörnsdóttur, fyrrverandi útibússtjóra Íslandsbanka, atkvæði sitt. Brynja vildi ekkert segja um þetta í gær. Jón Pálmi Pálsson, bæjarritari á Akranesi, var í hópi umsækjenda. Hann telur of snemmt að segja til um það hvort einhverjir umsækjenda muni kæra ráðninguna en mörgum þyki þetta "merkileg ráðning." Jón Pálmi segist eiga eftir að meta sína stöðu. Hann hafi ekki fengið neinar skýringar af hálfu meirihluta stjórnar Höfða. "Ég geri ráð fyrir því að óska eftir rökstuðningi," segir hann. Ráðningin hefur sætt gagnrýni á vef Akraneskaupstaðar. Þar er talið að sjálfstæðismenn hafi ætlað að koma gæðingi sínum í starfið þó að margir hæfari menn hafi sótt um stöðuna. Hugsanlega hafi jafnréttislög og stjórnsýslulög verið brotin. Benedikt Jónmundsson, fulltrúi sjálfstæðismanna, hafnaði þessu í gær og sagði gefa auga leið að sjálfstæðismennirnir hafi talið Guðjón hæfastan í starfið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×