Erlent

Ráðist gegn umsækjendum

Enn er ráðist gegn umsækjendum um löggæslustörf í Írak. Í gær féllu ellefu manns í slíkri árás en auk þeirra fórst fjöldi fólks í árásum víða um landið. Atburðurinn varð í miðborg Bagdad í gærmorgun þegar maður með sprengiefni innanklæða gekk inn í þvögu umsækjenda og kveikti á vítisvél sinni. Ellefu biðu bana og fjórtán særðust alvarlega. Fyrr um morguninn voru gerðar tvær árásir á lögreglumenn í höfuðborginni og lágu níu í valnum eftir þær. Kvöldið áður biðu svo níu hermenn hermenn bana í bílsprengjuárás í Dorah sem er nærri Bagdad. Að mati Brooking-stofnunarinnar í Washington hafa 616 íraskir lögreglumenn týnt lífi það sem af er ári. Ennþá á eftir að manna nokkur ráðherraembætti í írösku ríkisstjórninni en í gær tilkynnti Ibrahim al-Jaafari forsætisráðherra að búið væri að skipa í hinar mikilvægu stöður olíumálaráðherra og rafmagnsmálaráðherra. Mihsin Shlash, þingmaður sjía, tekur að sér rafmagnsmálin en Ibrahim Bahr al-Ulom mun leiða olíumálaráðuneytið, rétt eins og hann gerði í ráðgjafarráðinu sem Bandaríkjamenn skipuðu fljótlega eftir innrásina en bráðabirgðaríkisstjórnin leysti svo af hólmi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×