Erlent

Tvær sprengjur sprungu í New York

Tvær sprengjur skóku ræðismannsskrifstofu Bretlands í New York í morgun. Gluggar splundruðust og lögregla lokaði af svæði á Manhattan meðan fleiri sprengja var leitað. Sprengjurnar sprungu um klukkan átta í morgun, fjögur um nótt að staðartíma. Báðum var þeim komið fyrir í eða við steinsteypt blómaker utan við ræðismannsskrifstofuna, en ker af þessu tagi eru stór og þung og einkum ætlað að koma í veg fyrir að bílar bruni inn í byggingar. Lögregla telur að um litlar, heimatilbúnar sprengjur hafi verið að ræða. Vitni segjast hafa heyrt tvær sprengingar með nokkurra sekúndna millibili en lögregla segir sprengjurnar hafa verið fylltar byssupúðri og að hver sá sem kom þeim fyrir hafi þurft að kveikja í þræði og svo hlaupa burt. Nokkrar skemmdir urðu á framhlið byggingarinnar, gluggar splundruðust og bíll skammt frá skemmdist en engan sakaði enda hánótt í New York. Viðbúnaður lögreglu var þó töluverður. Sérsveitir voru kallaðir á staðinn ef ske kynni að fleiri sprengjum hefði verið komið fyrir og hlutar Manhattan voru lokaðir af. Leitað var í ruslatunnum og undir bílum á stóru svæði í grennd við ræðismannsskrifstofuna á Manhattan, en skrifstofan er á 3. breiðgötu á milli 51. og 52. strætis, ekki langt frá höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×