Innlent

Eiður fyrirmynd erlendra leikmanna

Eiður Smári Guðjohnsen hefur sýnt öðrum erlendum leikmönnum hvernig þeir eiga að laga sig að ensku knattspyrnunni, segir breska blaðið The Sun í umfjöllun um lið hans, Chelsea, sem varð enskur meistari um helgina. Blaðið gefur Eiði 9 í einkunn fyrir keppnistímabilið. Breska blaðið gefur öllum leikmönnum Chelsea einkunn fyrir keppnistímabilið. Þeir John Terry, Frank Lampard og Petr Cech fá hæstu einkunn, eða 10, og er Eiður Smári í hópi fimm leikmanna sem fá næsthæstu einkunn, eða 9. Blaðið segir að Eiður Smári hljóti að hafa búist við hinu versta þegar Drogba og Kezman gengu til liðs við Chelsea í fyrra en hann hafi haldið stöðu sinni og síðan reynt fyrir sér sem miðvallarleikmaður með frábærum árangri. Segir The Sun að hann hafi sýnt öðrum útlenskum leikmönnum hvernig eigi að takast á við og laga sig að ensku knattspyrnunni. Blaðið spjallar ennfremur við Eið Smára sem lofar Jose Mourinho fyrir að skapa ótrúlega góða liðsheild. Eiður, sem væntanlega fær mikla fúlgu fjár í bónus fyrir meistaratitilinn um helgina, segir að það þurfi þó meira til en peninga til að vinna titil. Hann segir liðsandann skipta miklu máli og hann hafi skipt sköpum á keppnistímabilinu. Eiður segir Chelsealiðið hafa náð vel saman og segir hann leikmenn liðsins hreinlega elska að leika fótbolta. Þetta eigi einnig við um stjórnendur og aðra sem tengjast liðinu. Eiður segir að lokum við breska blaðið að það hafi verið stærsta stund á hans ferli að vinna meistaratitilinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×