Erlent

Kröfugöngur og Castro-ræður

Milljónir launþega, frá Tókýó til Havana og um alla Evrópu, tóku í gær þátt í kröfugöngum og hátíðahöldum í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins, 1. maí. Verkalýður landa heims sýndi samstöðu meðal annars með göngu fáeinna þúsunda Bangladessbúa sem krefjast lágmarkslauna, til á að giska einnar milljónar Kúbverja sem hlýddu á Fidel Castro á Byltingartorginu í Havana. Yfir hálf milljón Þjóðverja tók þátt í kröfugöngum og útifundum í borgum landsins. Kröfurnar tengdust gjarnan þeirri pólitísku umræðu sem farið hefur fram í Þýskalandi að undanförnu um að stjórnendur fyrirtækja séu að auka arðsemi, hagnað og eigin kaupauka á sama tíma og verið sé að þrýsta niður launum almennra launþega, flytja störf úr landi og skera niður. Í Rússlandi blönduðust kröfugöngur fyrir réttindum verkamanna mótmælum gegn ríkisstjórninni. Þúsundir gengu undir rauðum fánum og myndum af Lenín og Stalín eftir breiðgötum Moskvuborgar. Í Frakklandi beindu sumir kröfugöngumenn spjótum sínum að Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar, í tilefni af því að í lok mánaðarins fer fram þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrársáttmála Evrópusambandsins. "Tyrkland+stjórnarskrá: Nei takk, ég held frekar Frakklandi" sagði á einum mótmælaborðanum í göngu Þjóðernisfylkingar Jean-Marie Le Pen, en fylgismenn hennar fylkja jafnan liði á fyrsta maí. Castro Kúbuleiðtogi réðst í ræðu sinni á Bandaríkin. Krafðist hann meðal annars framsals landflótta Kúbverja með venesúelskt ríkisfang, sem sakaður er um að bera ábyrgð á sprengjutilræði sem grandaði kúbverskri farþegaþotu árið 1976. Hinn ásakaði, Luis Posada Carriles, hefur leitað hælis í Bandaríkjunum. Hann neitar sakargiftum. Í Kína veitti kommúnistastjórnin rúmlega 2.900 verkamönnum - og fáeinum íþróttamönnum - heiðursviðurkenningar í tilefni dagsins. Og verkalýður fjölmennasta ríkis heims hóf að njóta fyrsta maí frísins, sem varir í heila viku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×