Viðskipti innlent

Enn deilt um völdin í Íslandsbanka

Enn og aftur er deilt um völdin í Íslandsbanka. Stærstu hluthafar bankans höfðu áhuga á að kaupa tryggingafélagið Sjóvá en einungis öðrum var boðið að samningaborðinu. Greiningadeild Landsbankans segir 26 milljarða afskaplega gott verð fyrir Sjóvá, svo ekki sé meira sagt. Það skiptir vissulega máli en engu að síður hlýtur að vera eðlilegt að spyrja hvers vegna ákveðið var að selja stjórnarmanni félagið þegar aðrir höfðu áhuga? Einar Sveinsson, stjórnarformaður Íslandsbanka, segir að Straumur hafi sýnt kaupunum áhuga. Þann 14. mars hafi stjórnin svo upplýst Straum um að ákveðnar þreifingar væru í gangi. „Mér finnst býsna skrítið síðan af þeirra hálfu að notfæra sér þær upplýsingar í þeim tilgangi að reyna að þvinga sig að samningaborði sem þeir eiga engan rétt á að koma að,“ segir Einar. Þórður Már Jóhannesson, framkvæmdastjóri Straums, staðfestir að þeir hafi fengið að vita að fyrrnefndar hugmyndir væru á lofti um miðjan mars. Þeir hafi þá mótmælt þeirri hugmyndafræði sem bankinn hugðist viðhafa, að ræða við einn aðila, og sér í lagi einn af stærstu hluthöfum bankans. Straumur hafi í kjölfarið óskað eftir því að fá að sitja við sama borð og viðkomandi hluthafi og hafa ferlið gagnsætt. Nokkrum dögum síðar hafi forstjóri Íslandsbanka tjáð þeim að hætt hafi verið við að selja hlut bankans í Sjóvá. Einar segir að það hafi þótt góður kostur að selja Karli Wernerssyni og fjölskyldu vegna þess að þeirra hugmyndir um rekstur tryggingafélagsins samræmist hugmyndum Íslandsbanka. Aðspurður hvort hann telji að hagsmuna hluthafa hafi verið gætt við þessi kaup segir Einar svo fyllilega vera. Hvað sem líður hagsmunum hluthafa og deilum milli helstu eigenda þykir spekingum á fjármálamarkaði deginum ljósara að valdabarátta knúi vélina áfram. Með þessu hafi stjórn Íslandsbanka og forstjóri endanlega komið í veg fyrir yfirtöku Straums og í raun lokað bankanum fyrir Björgólfsfeðgum og viðskiptafélögum þeirra. Spyrjum samt að leikslokum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×