Viðskipti innlent

Deilir um gögn við eftirlit

Þrátt fyrir ítrekuð tilmæli Fjármálaeftirlitsins um að KB banki afhendi tiltekin gögn hefur bankinn ekki orðið við þeim með fullnægjandi hætti. Þá hefur bankinn á síðari stigum sagst myndu vísa því til kærunefndar ef Fjármálaeftirlitið ítrekaði tilmæli sín enn frekar og hefur aðili málsins sent viðskiptaráðherra til athugunar hvort það samrýmist lögum um fjármálastofnanir og tilskipanir Evrópusambandsins. Málið varðar vaxtaútreikninga KB banka í viðskiptum við tiltekinn viðskitpavin, sem bankinn sendi Fjármálaeftirlitinu sem svar við fyrirspurn þess. Fjármálaerftirlitið taldi ástæðu til að gera athugasemdir við framsetningu, útskýringar og rökstuðning bankans og óska nánari skýringa sem bankinn varð ekki við með fullnægjandi hætti. Þegar Fjármálaeftirlitið óskaði enn eftir nánari skýringum svaraði bankinn meðal annars með eftirfarandi hætti orðrétt: „Sjái Fjármálaeftirlitið ástæðu til að ítreka kröfu sína um að bankinn sendi bréfið til viðskiptavinarins mun bankinn bera þá ákvörðun undri kærunefnd lögum samkvæmt og óska eftir úrskurði um það hvort eftirlitið hafi heimildir til þess að gera slíka kröfu á hendur bankanum.“ Bankinn lét þó ekki verða af því að kæra Fjármálaeftirlitið, en eftirlitið útskýrði og rökstuddi fyrir bankanum heimildir sínar til að ganga á eftir þessum upplýsingum og vísaði til þess hlutverks síns að tryggja að fjármálastofnanir færu að lögum um og stunduðu eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. Í leiðinni ítrekaði eftirlitið enn að bankinn sendi umbeðnar upplýsingar til viðskiptavinarins en sem fyrr reyndust þær ófullnægjandi. Í framhaldi af því greindi eftirlitið viðskiptavininum frá því að það hefði gert athugasemd við bankann fyrir að setja fram skjal af því tagi sem hér um ræðir án þess að geta í öllum atriðum rökstutt efni þess, eins og Fjármálaeftirlitið orðar þetta í bréfi. Nú er rúmur mánuður liðin frá því að eftirlitið gerði athugasemdina við KB banka án þess að bankinn hafi brugðist við henni. Í ljósi þessara samskipta Fjármálaeftirlitsins og KB banka vill viðskiptavinurinn að viðskiptaráðuneytið, en Fjármálaeftirlitið heyrir undir það, skeri úr um það hvort sú síðbúna ætlan KB banka í þessu ferli að kæra Fjármálaeftirlitið standist lög.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×