Erlent

Kínverjar og Japanar kljást

Kínverski utanríkisráðherrann Li Zhaoxing tjáði japönskum starfsbróður sínum í gær að kínversk stjórnvöld hefðu ekkert að biðjast afsökunar á, en japanskir ráðamenn hafa farið fram á að kínversk stjórnvöld biðji Japana afsökunar á and-japanskri múgæsingu í Kína sem leitt hefur meðal annars til þess að rúður voru brotnar í japanska sendiráðinu í Peking. Zhaoxing sakaði aftur á móti Japansstjórn um að troða Kínverjum um tær með því hvernig hún umgangist söguritun um það sem Japanar aðhöfðust í síðari heimsstyrjöld. Kínversk stjórnvöld heimiluðu ný fjöldamótmæli í að minnsta kosti sex borgum nú um helgina, en mótmælunum er beint gegn viðleitni Japana til að fá varanlegt sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og gegn því sem Kínverjar álíta vera tilraunir Japana til að loka augunum fyrir stríðsgrimmdarverkum þeirra á fjórða og fimmta áratugi tuttugustu aldar. Utanríkisráðherra Japans, Nobutaka Machimura, flaug til Peking í gær til að freista þess að jafna öldurnar í þessari alvarlegustu milliríkjadeilu asísku stórþjóðanna í áratugi. Machimura sagði það "mjög óheppilegt" að Kínastjórn skyldi ekki vera reiðubúin að biðjast afsökunar á hinum and-japanska múgæsingi. Á laugardag aðhafðist lögregla í Sjanghæ lítið er mótmælendur brutu rúður í japönsku ræðisskrifstofunni, gengu berserksgang á japönskum veitingastöðum og skemmdu bíla. "Svona uppákomur hjálpa ekki hið minnsta til að bæta samskipti landanna tveggja," sagði Hatsuhisa Takashima, talsmaður japanska utanríkisráðuneytisins. Óvild í garð Japana hefur verið kraumandi í Kína að undanförnu vegna umdeildra japanskra sögukennslubóka, borunar eftir gasi á svæði í Austur-Kínahafi sem bæði lönd telja tilheyra sinni efnahagslögsögu, og öryggisráðsumsóknar Japana. Eldri ágreiningsefni eins og tengslin við Taívan liggja þar einnig undir niðri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×