Erlent

Talat nýr forseti Kýpur-Tyrkja

Kýpur-Tyrkir kusu í gær nýjan forseta lýðveldis síns, sem Tyrkland, eitt ríkja heims, viðurkennir sem sjálfstætt ríki. Sigurvegarinn er Mehmet Ali Talat, en hann hefur það á stefnuskránni að sjá til þess að hinn tyrkneski hluti eyjarinnar fái líka aðild að Evrópusambandinu eins og gríski suðurhlutinn - eina alþjóðlega viðurkennda ríkið á eynni - hefur átt frá því í fyrravor. Talat fékk 56 prósent atkvæða samkvæmt opinberum úrslitum kosninganna. Helsti keppnautur hans, Dervis Eroglu, fékk aðeins 23 prósenta fylgi. Niðurstaðan felur í sér allnokkur tímamót, þar sem nú lætur af völdum hinn 81 árs gamli Rauf Denktash, sem í áratugi hefur beitt sér gegn tilraunum til endursameiningar Kýpur. Eyjan hefur verið tvískipt frá því tyrkneski herinn gerði innrás árið 1974 eftir að kýpur-grískir ráðamenn eyjunnar gerðu sig líklega til að sameina hana Grikklandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×