Erlent

Kjörfundur hefst í Páfagarði

Kardínálarnir 115, sem kjósa munu arftaka Jóhannesar Páls II páfa, tíndust í gær með persónulegar föggur og hver sína sýn á framtíð kaþólsku kirkjunnar inn á hótelið í Páfagarði, næst Sixtínsku kapellunni, þar sem þeir munu sitja á rökstólum bak við luktar dyr næstu sólarhringana. Ekkert á að fréttast út fyrir veggi kapellunnar fyrr en hvítur reykur stígur upp úr þar til gerðum reykháf sem táknar að kardínálarnir hafi komist að niðurstöðu um það hver þeirra verði nýr leiðtogi hins 1,1 milljarðs manna sem játar kaþólska trú. Kjörfundur kardínálanna hefst eftir að þeir ganga í dag fylktu liði í rauðum hempum inn í Sixtínsku kapelluna. Á síðustu hundrað árum hefur slíkur páfakjörfundur aldrei staðið lengur en í fimm daga. Síðast, er Pólverjinn Karol Wojtyla var kjörinn páfi árið 1978, þurfti átta atkvæðagreiðsluumferðir á þremur dögum til að niðurstaða næðist. "Hinn nýi páfi hefur þegar verið valinn af Drottni. Við verðum bara að biðja til að skilja hver hann er," tjáði Ennio Antonelli kardínáli heimasöfnuði sínum í stólræðu í St. Andrea della Fratte-kirkjunni í Róm.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×