Erlent

Samskiptin ekki stirðari í áratugi

Samskipti stórveldanna í Asíu, Kína og Japans, eru nú verri en verið hefur um áratugaskeið. Japanar krefjast aðgerða og Kínverjar segjast ekki þurfa að biðjast afsökunar á neinu. Utanríkisráðherra Japans flaug í morgun til Kína til að koma á framfæri hörðum mótmælum japanskra stjórnvalda vegna róstursamra mótmæla og skemmdarverka á eigum Japana í Kína undanfarið. Hann vonast einnig til þess að geta lægt öldurnar nokkuð, en Kínverjar eru æfir vegna þess sem þeir segja tilraun Japana til að breiða yfir eigin grimmdarverk í seinni heimsstyrjöldinni. Þeir vilja einnig hindra að Japanar fái fast sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Samskipti stjórþjóðanna eru nú stirðari en þau hafa verið svo áratugum skiptir. Kínverskir ráðamenn segja ekki koma til greina að biðjast afsökunar á atburðum liðinna vikna, þeir hafi enga ástæðu til þess þar sem óeirðirnar og mótmælin séu Japönum sjálfum að kenna. Almenningi hefði ofboðið framferði hægriöfgamanna í Japan, sem legðu sig fram við að leggja samskipti ríkjanna í rúst. Engu að síður reyna kínverskir ráðamenn nú að draga úr spennunni, fyrst og fremst af ótta við að mótmælin breiðist út og þeir missi stjórn á skaranum. Það sem af er degi hefur þó allt verið með kyrrum kjörum í Kína, en í Víetnam söfnuðust nokkrir tugir Kínverja við japanska sendiráðið í Hanoi og mótmæltu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×