Erlent

Vísar ábyrgðinni annað

Bandaríkjamenn og Bretar bera stóran hluta ábyrgðarinnar á því að Saddam Hussein gat smyglað olíu og stórgrætt á því, segir framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Stærsti hluti gróða Saddams Husseins á meðal viðskiptabanni á Írak stóð stafaði af ólöglegri sölu olíu til Jórdaníu og Tyrklands en var ekki vegna spillingar í tengslum við áætlun Sameinuðu þjóðanna um olíu fyrir mat. Þetta segir Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, og bætir því við að Bandaríkjamenn og Bretar hafi verið í betri aðstöðu en nokkur annar til þess að vita af þessu. Stjórnvöld í Lundúnum og Washington hafi hins vegar ákveðið að láta sem ekkert væri þar sem Tyrkland og Jórdanía voru bandamenn. Skammt er síðan að skýrsla um klúður og spillingu í olíuáætlun Sameinuð þjóðanna var gerð opinber, en Annan segir að þær upphæðir sem þar séu nefndar séu skiptimynt borið saman við gróðann af smyglinu til Tyrklands og Jórdaníu. Annan sætti nokkurri gagnrýni í skýrslunni og enn er til rannsóknar hugsanleg aðild Kojos, sonar Annans, að spillingarmálunum. Hvöss orð Annans marka hins vegar viss þáttaskil og eru til merkis um að hann hyggist snúa vörn í sókn. Það er þó áhættusamt að sækja að þeim tveimur stórveldum sem ráða hvað mestu um hvort að Annan situr áfram á framkvæmdastjórastóli hjá Sameinuðu þjóðunum. Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands, hefur vísað gagnrýninni á bug með öllu og talsmenn Bandaríkjastjórnar taka í sama streng.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×