Erlent

Óttast að mótmæli fari úr böndunum

„Japanskir innrásarhermenn deyi!“ hrópuðu þúsundir æstra mótmælenda í austurhluta Kína í morgun. Kínversk stjórnvöld virðast nú hafa af því nokkrar áhyggjur af mótmælin geti farið úr böndunum. Aðra helgina í röð streymdu öskuillir Kínverjar út á götur borga og bæja til að mótmæla japanskri kennslubók þar sem Kínverjum þykir skautað yfir grimmdarverk Japana í seinni heimsstyrjöldinni. Hún var kornið sem fyllti mælinn og stjórnvöld í Peking eru sögð hafa leyft mótmælin fyrir viku þar sem þau töldu mótmælin til þess fallin að draga úr líkum á að Japanar fengju fast sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Í morgun köstuðu mótmælendur grjóti og flöskum að japönsku ræðismannsskrifstofunni í Shanghai og virðist Japönum brugðið. Stjórnvöld í Tókýó mótmæltu því að kínversk yfirvöld skyldu ekki koma í veg fyrir skemmdarverk og gæta öryggis Japana í Kína. Stjórnvöld í Peking virðast nú einnig hafa áhyggjur af því að mótmælin gætu farið úr böndunum og fréttaskýrendur hafa sagt að þau séu leikur að eldinum þar sem óánægja vegna annarra mála gæti brotist út í kjölfarið. Yfirvöld vöruðu í dag meðal annars námsmenn við að taka þátt í mótmælunum og óeirðalögregla stöðvaði mótmæli í Guanhzhou og Chongqing.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×