Erlent

Sextíu manns í gíslingu í Írak

Mannræningjar í Írak halda sextíu manns í gíslingu skammt frá Bagdad og hóta að drepa alla gíslanna yfirgefa ekki allir sjítar svæðið þegar í stað. Herlið Bandaríkjanna og Íraks vinnur að því að semja við mannræningjana um að sleppa gíslunum sem allir eru sjítar úr bænum Madaen. Þar hafa átök á milli sjíta og súnníta verið hörð og harðnað undanfarið. Mannránin í gær eru ekki þau fyrstu heldur einungis síðasta dæmið í langri röð mannrána sem virðast oft framin í hefndarskyni fyrir mannránið á undan. Auk mannrána segja fréttaritarar í Madaen að byssumenn úr röðum súnníta hafi hrakið nokkurn fjölda sjítafjölskyldna frá heimilum sínum í nótt. Á liðnum dögum hafa mannrán og sprengjuárásir kostað 34 hið minnsta lífið. Eftir kosningarnar í janúar fækkaði árásum um 20 prósent eða svo en á undanförnum dögum hefur þeim stórfjölgað á ný. Írakskir embættismenn segja við Reuters-fréttaþjónustuna að sú staðreynd að ellefu vikum eftir kosningar sé ekki enn komin starfhæf ríkisstjórn sé vindur í segl uppreisnar- og hryðjuverkamanna sem sjái tækifæri til að grafa undan stjórninni áður en hún hefur verið mynduð. Að auki dragist fyrir vikið að takast á við verkefni stjórnarinnar en efst á blaði er að taka á andspyrnunni og sívaxandi vanda tengdum skipulögðum glæpum. Raunar geta írakskir lögreglumenn sér til um að mannránin í Madae tengist jafnvel skipulögðum glæpum. Á liðnu ári hefur yfir fimm þúsund Írökum verið rænt og lausnargjalds krafist. Átökin í Madaen, segja íröksku lögreglumennirnir, gætu því hugsanlega verið átök tveggja glæpagengja sem berjast um yfirráðasvæði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×