Erlent

Vanhanen í framboð til forseta

Matti Vanhanen, forsætisráðherra Finnlands, lýsti því yfir í dag að hann hygðist bjóða sig fram til forseta landsins í kosningum í byrjun næsta árs. Frá þessu greinir finnska fréttastofan STT. Vanhanen hefur setið í stóli forsætisráðherra í tvö ár en samkvæmt STT mun hann hafa tjáð flokksfélögunum sínum í Miðjuflokknum að hann vilji fremur gegna forsetaembættinu sem er æðsta og virtasta embætti landsins. Skoðanakannanir sýna að við Vanhanen bíði erfitt verkefni þar sem hann hefur aðeins stuðning 10 prósenta landsmanna en sitjandi forseti, Tarja Halonen, fengi hins vegar 45 prósent ef kosið yrði nú. Þriðji kandídatinn, Sauli Niinisto frá Íhaldsflokknum, er hins vegar með 19 prósenta fylgi. Það skal þó tekið fram að Tarja Halonen hefur ekki gefið út hvort hún sækist eftir endurkjöri en yfirlýsingar frá henni er að vænta á næstu vikum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×