Erlent

Enginn neyðarútgangur á hóteli

Tíu börn eru meðal þeirra sem fórust þegar hótel í París brann til kaldra kola í nótt. Enginn neyðarútgangur var á hótelinu og eldurinn læsti sig í stigaganginn svo fjöldi fólks hafði enga undankomuleið. Það var skömmu eftir klukkan tvö í nótt sem slökkvilið Parísarborgar var kallað að Paris-Opera hótelinu skammt frá hinni þekktu stórverslun Galerie Lafayette í níunda hverfi Parísar. Hótelið er í gömlu húsi og reglugerðir heimila að þar sé hvorki neyðarútganga eða brunastiga að finna. Gestirnir, velflestir innflytjendur sem félagsmálayfirvöld hýstu til bráðabirgða á hótelinu, sváfu þegar eldurinn kviknaði á neðri hæðum. Engin sprenging varð eða hávaði sem hefði getað vakið fólki. Eldurinn læsti sig í stigaganginn og rauk upp eftir hótelinu. Gestir áttu sér því enga undankomuleið, margir stukku út um glugga og ofan af þaki og sjónarvottar sáu foreldra reyna að bjarga börnunum sínum með því að kasta þeim út um glugga. Af 76 gestum fórust ekki færri en tuttugu. Óttast er að talan geti hækkað þar sem á annan tug liggur þungt haldinn á sjúkrahúsum og enn er leitað í rústum hótelsins. 250 brunaliðsmenn og tíu sjúkrabílar voru á vettvangi í nótt og þó að slökkvistarfið hafi gengið nokkuð vel var það of seint fyrir fjölda hótelgesta. Um fimmtíu slösuðust og var þeim sinnt í bráðabirgðamóttöku sem sett var upp í Galerie Lafayette. Meðal þeirra voru nokkrir bakpokaferðalangar sem gistu á hótelinu. Lögregla segir enga ástæðu til að ætla að kveikt hafi verið í en saksóknarar í París segja að málið verði rannsakað vegna gruns um manndráp af gáleysi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×