Erlent

Vopnasölubann áfram í gildi

Utanríkisráðherrar Evrópusambandsríkjanna náðu ekki samkomulagi um að aflétta vopnasölubanni til Kína á fundi sínum í Lúxemborg í gær. Málinu hefur því verið frestað um sinn og líklegast verður það ekki tekið upp á ný fyrr en árið 2006. Eftir fjöldamorðin á Torgi hins himneska friðar í Peking árið 1989 ákváðu ríki Evrópusambandsins að hætta allri vopnasölu til Kínverja um óákveðinn tíma. Nokkur ríki sambandsins með Frakka og Þjóðverja í broddi fylkingar hafa hins vegar verið áhugasöm um að aflétta banninu en gegn því hafa Bretar og Norðurlandaþjóðirnar lagst. Bandaríkjamenn eru jafnframt andsnúnir vopnasölu til Kína og þegar Kínverjar samþykktu lög á dögunum sem heimiluðu hernað gegn Taívönum ef þeir lýstu yfir sjálfstæði settu stjórnvöld í Washington enn meiri þrýsting á ESB-ríkin í þessum efnum. Nú hefur málinu verið stungið undir stól í bili. Jafnframt samþykkti Evrópuþingið ályktun á fimmtudaginn þar sem hvatt var til að vopnasölubannið yrði áfram í gildi vegna mannréttindabrota kínverskra yfirvalda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×