Erlent

Chirac sakaður um hræðsluáróður

Frakkland hættir að vera til innan Evrópusambandsins hafni Frakkar evrópskri stjórnarskrá í kosningum, segir Jacques Chirac, forseti landsins. Gagnrýnendur saka hann um hræðsluáróður. Chirac birtist á sjónvarpsskjám Frakka í gærkvöldi til að reyna að sannfæra almenning um mikilvægi þess að samþykkja stjórnarskrána í þjóðaratkvæðagreiðslu en kannanir benda eindregið til þess að meirihluti Frakka muni fella hana. Chirac fór mikinn um mikilvægi sameinaðrar Evrópu, sem mótvægi við önnur stjórveldi, einkum Bandaríkin, Kína og Indland. Hann lagði á það áherslu að hvorki væri verið að kjósa um innanríkismál né inngöngu Tyrkja í Evrópusambandið. Þegar þar að kæmi fengju kjósendur tækifæri til þess að segja hug sinn um þau mál sérstaklega í kosningum. Sjónvarpsútsendingin var sett upp sem kappræður en það voru þó ekki helstu gagnrýnendur Evrópustendu Chiracs og stjórnarskrárinnar sem mættu forsetanm, heldur framhaldsskólanemar sem þóttu ekki spyrja af sérstakri grimmd. Þrátt fyrir þetta gagnrýna bæði franskir fjölmiðlar og stjórnarandstæðingar Chirac harðlega og segja hann hafa átt í mestu erfiðleikum með að koma kostum stjórnarskrárinnar til skila. Í staðinn hafi hann gripið til hræðsluáróðurs sem eigi ekki við rök að styðjast.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×