Erlent

Ríkisstjórn á brauðfótum

Pólitískt líf Silvios Berlusconis, forsætisráðherra Ítalíu, hangir á bláþræði eftir að enn einn flokkurinn sagði sig úr ríkisstjórn hans í morgun. Í héraðs- og borgarstjórnakosningum á Ítalíu í síðustu viku guldu stjórnarflokkarnir afhroð. Síðan þá hefur hart verið lagt að Berlusconi að rjúfa þing og boða til nýrra kosninga. Hann hefur þverneitað að gera neitt slíkt sem og að gera róttækar breytingar á ríkisstjórninni og stefnu hennar. Í gær var efnt til neyðarfundar og í kjölfarið greindi Giangfranco Fini, leiðtogi Þjóðfylkingarinnar og utanríkisráðherra, frá því að hann teldi eðlilegt að Berlusconi leitaði stuðningsyfirlýsingar frá þinginu. Í morgun fylgdu svo kristilegir demókratar hótun sinni eftir og sögðu sig úr ríkisstjórn Berlusconis. Ákvörðunin er áfall fyrir Berlusconi þrátt fyrir að leiðtogar flokksins kveðist ætla að styðja stjórnina áfram. Fjórir ráðherrar flokksins hverfa nú úr stjórninni, sem stendur fyrir vikið á brauðfótum. Auk flokks Berlusconis hefur einungis Norðurbandalagið lýst því yfir að það styðji áfram stjórnina. Málum er nú svo komið að Berlusconi er nánast neyddur til að segja af sér og efna til nýrra kosninga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×