Erlent

Fimmtán látnir í eldsvoða í París

Að minnsta kosti fimmtán manns létust í eldsvoða sem varð á hóteli í miðborg Parísar í nótt. Meira en fimmtíu manns eru slasaðir, þar af nærri tuttugu lífshættulega. 250 slökkviliðsmenn voru þegar sendir á vettvang og tókst þeim að slökkva eldinn á neðstu hæðum hússins um klukkan þrjú í nótt. Snemma í morgun var þó enn einhver eldur á efri hæðum hótelsins, sem er á sex hæðum, og nokkir hótelgestir lokaðir þar inni. Þrír gestanna köstuðu sér út um glugga hótelsins í nótt þegar þeir voru komnir í sjálfheldu vegna elds og reyks. Að sögn sjónarvotta lágu tveir þeirra hreyfingarlausir í götunni eftir fallið. Talið er að í hópi þeirra sem létust séu bæði ferðamenn og börn, en það hefur þó ekki verið staðfest. Talsmaður slökkviliðs Parísarborgar segist óttast mjög að fleiri lík eigi eftir að finnast þegar slökkviliðsmenn komast upp á efstu hæðir hótelsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×