Erlent

Hvatti til að landtöku yrði hætt

George Bush Bandaríkjaforseti snupraði Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, á fréttamannafundi í gær og olli undrun þegar hann hvatti til þess að landnámi á Vesturbakkanum yrði hætt. Fundur þeirra Sharons og Bush í gær var upphaflega ætlaður til stuðnings Sharon en hann á á brattann að sækja með fyrirætlaðan brottflutning frá Gasaströndinni. Fyrir fram var búist við því að Bush gerði landnám á Vesturbakkanum að umræðuefni á fundi þeirra en þegar hann bryddaði upp á því á fréttamannafundi kom það sumum fréttaskýrendum í opna skjöldi. Það þykir jafngilda hálfgerðum skömmum að Bush skuli með opinberum hætti hafa hvatt til þess að landnámi yrði hætt í takt við friðarvegvísinn en Sharon gaf lítið fyrir það. Hann sagðist almennt sammála Bush en að landnemabyggðir á Vesturbakkanum væru hluti af Ísraelsríki og yrðu það áfram. Ísraelsmenn fullyrða að þeir hafi fullan rétt til að stækka þessar landnemabyggðir. Fréttaskýrandi dagblaðsins Haaretz segir ljóst að ágreiningur sé fyrir hendi og að Bush hafi ekkert gert til að fela hann. Að sama skapi sé ljóst að Bush hafi stutt dyggilega við bakið á Ísraelsmönnum og Sharon fyrir um ári en finnist nú tímabært að jafna leikinn og styðja Palestínumenn líka. Í gær hrósaði Bush palestínskum stjórnvöldum fyrir að hafa bætt ástandið á sjálfsstjórnarsvæðum Palestínumanna. Í viðtölum við ísraelska fjölmiðla í dag hafa aðstoðar- og talsmenn Sharons gert sitt ýtrasta til að gera sem minnst úr ágreiningnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×