Sport

Tiger fer hamförum á Masters

Tiger Woods er efstur á samtals 11 höggum undir pari eftir þriðja hring á US Mastersmótinu í golfi sem fram fer á Augusta vellinum í Georgíu í Bandaríkjunum. Woods sem var í 36. sæti eftir fyrsta hring hefur hreint farið á kostum eftir dapra byrjun og skotið keppinautum sínum ref fyrir rass með því að fara þriðja hringinn á 7 undir pari eða 65 höggum. Woods náði 9 fuglum á þriðja hring en hann fékk 7 fugla í röð frá sjöundu til þrettándu holu og var þá kominn á 9 undir parið. Þá fékk hann tvo skolla í röð en paraði síðustu 3 holurnar.  Daninn Thomas Björn er þriðji á 7 undir pari. Ekki var unnt að ljúka þriðja hring fyrr en í morgun þar sem veður hefur sett strik í reikninginn en fjórði hringur verður leikinn í dag. Bandaríkjamaðurinn Chris DiMarco er í 2. sæti á 8 undir pari eftir að hafa leitt mótið áður en Woods fór í gang.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×